Tímabil
  • SKautbúningur Sigurlaugar

1800-1900 Þjóðin og þéttbýlið

Á 19. öld tóku Íslendingar stefnu á að mynda sérstakt þjóðríki. Fjölbreytni í atvinnulífi jókst með útgerð þilskipa. Verslun margfaldaðist og vísir að borgarastétt varð til.

Færarstokkur frá 19.öldMyndun þjóðríkis og fyrstu skref lýðræðisþróunar fylgdust að. Árið 1845 fengu Íslendingar ráðgjafarþing, Alþingi í Reykjavík. Árið 1874 fékk þingið löggjafarvald. En kosningarétt hafði aðeins um helmingur uppkominna karlmanna. Fiskveiðar jukust. Tekið var að veiða á þilskipum sem sóttu fiskinn lengra og fiskuðu lengur á hverju ári en opnu árabátarnir. Þilskipin gerðu mögulegt að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu. Þó var alltaf aflað meiri fiskjar á árabátum en þilskipum.

Gripir 19. aldar

Mynd okkar af Íslendingnum skýrist verulega á 19. öldinni. Atvinnutól og tæki eru í fórum safnanna þótt enn eigi slíkt efni eftir að aukast verulega á 20. öld. Ljósmyndatæknin varð til og þróaðist á síðari hluta 19. aldar og hún gjörbreytir og styrkir aðstöðu okkar til þess að skoða fortíð okkar og túlka hana. Áfram eru það útskornir gripir hvers konar sem setja mark sitt á safnkostinn, útsaumaðir gripir og ofnir eru einnig áberandi. Tækjum og tólum fjölgar til muna.

Á þessu tímabili er Þjóðminjasafn Íslands stofnsett og breytir allri aðstöðu til þess að varðveita heimildir um liðna tíð. Merkum fornum gripum var forðað frá glötun. Frumkvöðlarnir höfðu haldgóða þekkingu og stóra drauma um liðna tíð sem setti mark sitt á það hvað kom til safnsins. Enn áttu eftir að líða áratugir þar til söfnun hversdagslegra gripa hófst. Í upphafi 20. aldar voru fyrst sett lög um starfsemi Þjóðminjasafnsins.

Skautbúningur Sigurlaugar í Ás - lykilgripur tímabilsins 1800-1900

Sigurður Guðmundsson málari hafði mikinn hug á öllu því sem laut að íslenskri þjóð­menningu. Hann vildi bæta listmennt og smekk landa sinna og setti fram hugmyndir að endurbættum hátíðarbúningi kvenna. Náði skautbúningurinn svonefndi vinsældum á skömmum tíma og gamli faldbúningurinn hvarf skjótt. Fyrsti skautbúningurinn var borinn sem brúðarbúningur í Reykjavík haustið 1859.

SKautbúningur SigurlaugarMeginhlutar skautbúnings voru treyja og samfella úr svörtu klæði. Á treyjunni var gull- eða silfurbaldýring, en á samfellunni neðst útsaumsbekkur. Belti var um mittið, gjarnan sprotabelti. Á höfði var hvítur lágur króklaga skautafaldur (skaut) með samlitri faldblæju og faldhnút. Með faldinum var haft gyllt koffur eða spöng. Búningnum gat fylgt möttull, fremur síð ermalaus yfirhöfn. Sigurður hannaði einnig kyrtil, sem var einfaldari búningur en skautbúningur. Við kyrtilinn var borinn skautafaldur. Búningar Sigurðar eru notaðir enn í dag sem viðhafnarbúningar.

Skautbúningur sem Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási í Hegranesi saumaði sér vorið 1860 eftir leiðbeiningum Sigurðar málara. Búningurinn er úr svörtu klæði með einföldum baldýruðum laufaviði úr silfurþræði á treyjubörmunum, en neðan á samfellunni er blómstursaumaður bekkur sem Sigurður teiknaði og kenndi við Býsans. Búningurinn kom til Þjóðminjasafnsins úr dánarbúi Ingibjargar Guðmundsdóttur, uppeldisdóttur Áshjónanna. Þetta er elsti varðveitti skautbúningur sem um er vitað. Koffrið er smíðað af Sigurði Vigfússyni gullsmið og síðar forstöðumanni Forngripasafnsins, en beltið er eftir óþekktan smið.